GAM Management hefur sett á stofn tvo nýja sjóði sem munu fjárfesta annars vegar í skuldabréfum án ríkisábyrgðar og hins vegar í hlutabréfum. Í frétt á vefsíðu fyrirtækisins segir að eftir góða ávöxtun ríkisskuldabréfamarkaðar undanfarin ár sé tækifæri til að huga betur að öðrum fjárfestingarkostum.

Íslenskur hlutabréfamarkaður hafi tekið vel við sér árið 2012. Ávöxtun hafi verið með ágætum, stór ný félög voru skráð á markað og veltan jókst gríðarlega. Væntingar séu um frekari nýskráningar á komandi misserum. Einnig séu væntingar til þess að skuldabréfaútgáfa annarra aðila en opinberra muni taka að aukast á næstunni.

GAMMA: CREDIT mun sérhæfa sig á íslenskum skuldabréfamarkaði án ríkisábyrgðar. Að meginhluta er fjárfest í skráðum skuldabréfum án ríkisábyrgðar en auk þess hefur sjóðurinn heimild til að fjárfesta í skuldabréfum með ríkisábyrgð, óskráðum skuldabréfum, innlánum fjármálafyrirtækja og nýta sér afleiðusamninga til áhættustýringar eða sem hluta af fjárfestingarstefnu.

GAMMA: EQUITY fjárfestir að meginhluta í skráðum hlutabréfum. Sjóðurinn hefur einnig heimild til að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum, innlánum fjármálafyrirtækja, skuldabréfum með ríkisábyrgð og nýta sér afleiðusamninga til áhættustýringar eða sem hluta af fjárfestingarstefnu.