GAMMA Capital Management hefur samið við Þorgrím Þráinsson rithöfund um samstarf sem felst í því að hann heimsæki grunnskólanema með fyrirlestur um skapandi skrif, með það að markmiði að efla læsi og styrkja þar með sjálfsmynd nemenda að því er kemur fram í tilkynningu.

Verkefnið hefst á árinu 2018 og er stefnt að því að Þorgrímur muni þá bjóða upp á fyrirlesturinn fyrir nemendur í 4.- 6. bekk í liðlega tuttugu skólum.

„Það er okkur mikið ánægjuefni að geta stutt við þetta mikilvæga verkefni. GAMMA er nú þegar bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags, sem staðið hefur vörð um íslenska tungu í tvær aldir. Við teljum afar brýnt að stuðla jafnframt að því að efla lestur og skapandi skrif á íslensku hjá grunnskólanemum og fögnum því að fá Þorgrím Þráinsson til liðs við okkur í þeirri vegferð,“ segir Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA.

„Ég hef margoft á rithöfundaferli mínum kennt skapandi skrif fyrir börn og unglinga, sagt frá því hvernig ég byggi upp söguþráð og skapa persónur, og sett nemendum fyrir verkefni. Slíkt kveikir áhuga á lestri og sjálfstraust helst í hendur við læsi. Það er því mikið gleðiefni að fá tækifæri til að vinna að þessu verkefni með GAMMA, börnum til heilla,“ segir Þorgrímur Þráinsson rithöfundur.