Gamma Capital Management hefur tekið að sér rekstur þróunarsjóðsins Geothermal Development Facility fyrir bandaríska ráðgjafafyrirtækið Interlink Capital Strategies, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í nýmarkaðsríkjum að því er Vísir greinir frá.

Sjóðurinn, sem er að mestu fjármagnaður af þýska þróunarbankanum KfW í samstarfi við ESB, veitir styrkjafjármögnun til jarðvarmaverkefna í Suður Ameríku. Markmið hans er að fjármagna yfirborðskönnun og tilraunaboranir í álfunni og er stefnt að því að koma á laggirnar jarðvarmaverkefnum með um 350 MW framleiðslu, en heildarstærð hans er um 65 milljónir Bandaríkjadala eða sem samsvarar 7 milljörðum íslenskra króna.

Gísli Hauksson stjórnarformaður Gamma segir félagið hafa óbilandi trú á möguleikum jarðvarma, bæði hér heima og út um allan heim. „Við [...] teljum að hann muni leika sífellt stærra hlutverk í raforkuframleiðslu á heimsvísu,“ segir Gísli.

„Jarðvarminn hefur þá sérstöðu umfram vind- og sólarorku að geta tryggt grunnafl inn á raforkukerfi án truflana eða dægursveiflu, auk þess sem framfarir á sviði djúpborunar munu stórauka nýtingarmöguleika á næstu árum.“