Ríkissjóður og Félagsstofnun stúdenta, FS, hafa gengið frá kaupunum á húsnæðinu sem hýsti Hótel Sögu af Bændahöllinni. Afhending á tuttugu þúsund fermetra fasteigninni af Bændahöllinni mun fara fram á næstu vikum og mánuðum, að því er kemur fram í tilkynningu á vef Bændasamtakanna. Ekki er greint frá kaupverðinu.

Í Bændahöllinni fór starfsemi Hótel Sögu fram um áratuga skeið en hótelinu var endanlega lokað í nóvember 2020. Söluviðræður vegna fasteignarinnar hafa lengi staðið yfir.

Sjá einnig: Hótel Saga gjaldþrota

Hluti hússins verður nú nýttur undir starfsemi Háskóla Íslands en auk þess mun Félagsstofnun stúdent nýta húsið undir stúdentaíbúðir. Samningurinn var gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis en heimild til kaupanna var staðfest með samþykkt fjáraukalaga í gærkvöldi.

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, sagði við Fréttablaðið á dögunum, að háskólinn fái ríflega 70% af húsnæðinu undir starfsemi Menntavísindasviðs og FS fái tæplega 30% undir stúdentaíbúðir. Jón Atli sagði áætlaðan heildarkostnað, bæði kaupverð og endurbætur á hlut HÍ, vera um 6,5 milljarðar króna.

Á móti kemur mun háskólinn þurfa að láta af hendi húsnæði sitt í Stakkahlíð, Skipholti og á Neshaga sem gengur upp í kaupin.