Breska lúxusvörumerkjakeðjan Selfridges hefur verið seld til taílenska smásölustórveldisins Central Group og austurríska fasteignafélagsins Signa. Samkvæmt frétt BBC um málið kaupa félögin ráðandi hlut í Selfridges og er breska keðjan í kjölfar viðskiptanna metin á um 4 milljarða punda, eða sem nemur um 700 milljörðum króna.

Selfridges var stofnað árið 1908 af fasteignamógúlnum Harry Gordon Selfridge og er flaggskipsverslun keðjunnar staðsett á helstu verslunargötu London, Oxford stræti.

Árið 2003 keypti kanadískur vængur Weston auðmannsfjölskyldunnar Selfridges á 600 milljónir punda.

Selfridges er með um 10.000 starfsmenn á sínum snærum sem starfa í verslunum keðjunnar víða um heim, en 25 verslanir Selfridges eru reknar víða um heim. Verslanirnar eru m.a. staðsettar í stærstu borgum Bretlands, Írlands, Hollands og Kanada.

Central Group og Signa munu eignast 18 af verslununum 25. Sjö verslanir Seldridges, sem reyndar bera nafnið Holt Renfrew, eru ekki hluti að viðskiptunum og verða umræddar verslanir enn í eigu Weston fjölskyldunnar.