Bandaríski netverslunarrisinn Amazon greindi frá því í dag að gengið yrði formlega frá kaupum félagsins á verslunarkeðjunni Whole Foods næstkomandi mánudag. Tilkynningin kemur í kjölfarið á því að samkeppnisyfirvöld í Bandaríkjunum gáfu í gær grænt ljós á að kaupin myndu ganga í gegn.

Í gær samþykktu hluthafar Whole Foods einnig formlega yfirtökutilboð Amazon sem hljóðar upp á 13,7 milljarða dollara. Greiðir Amazon 42 dollara fyrir hvern hlut í verslunarkeðjunni.

Amazon greindi einnig frá því að Whole Foods yrði rekið sem dótturfyrirtæki félagsins. John Mackey verður áfram forstjóri Whole Foods auk þess sem höfuðstöðvar fyrirtækisins verða áfram í Austin í Texas ríki. Þetta kemur fram í frétt Reuters .

Stjórnendur Amazon eru þó strax farnir að láta til sín taka í rekstri Whole Foods. Í sameiginlegri tilkynningu frá fyrirtækjunum kemur fram að Whole Foods muni lækka verð á vinsælustu vörutegundum sínum frá og með næstkomandi mánudegi.

Tilkynningin virtist hafa töluverð áhrif á gengi hlutabréfa annara fyrirtækja á smásölumarkaði. Gengi bréfa Kroger Co. hefur lækkað um 8% það sem af er degi, Costco um 4,5%, Target um 4,2% og Walmart um 2,6%.