Kaupsamningur bandarísku verslanakeðjunnar Costco á tólf þúsund fermetra húsnæði í Kauptúni 3 í Garðabæ verður undirritaður þann 17. júlí næstkomandi. Greint er frá þessu á mbl.is .

Fasteignin er í eigu Sýslu ehf., sem er í eigu bræðranna Sigurðar Gísla og Jóns Pálmasona. Fram kemur í frétt mbl.is að Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra í Garðabæ, hafi verið boðið að vera viðstaddur undirritunina þann 17. júlí.

Stefnt er að því að verslunin verði tólf þúsund fermetrar að stærð og verði í þeim hluta Kauptúnsins sem nær frá versluninni Tekk og að Bónusi. Samkvæmt fasteignamati er Kauptún 3 alls 19 þúsund fermetrar að stærð og metið á um 2,3 milljarða króna.