*

sunnudagur, 19. september 2021
Fólk 29. nóvember 2020 19:01

Ganga í þoku og súld stóð upp úr

Þóra Birgisdóttir, sem hætti sem framkvæmdastjóri Borgar til að vera fasteignasali hjá Eignamiðlun, naut Hornstranda.

Ritstjórn
Með því að færa sig úr því að vera framkvæmdastjóri Borgar fasteignasölu til Eignamiðlunar segist Þóra Birgisdóttir geta einbeitt sér að því sem hún geri best. Hún nýtur sín á skíðum og í annarri útivist í frítíma sínum.
Aðsend mynd

„Ég kem hingað inn sem sölumaður en síðan var óskað eftir því að ég settist í stjórn félagsins til að fylgja eftir áherslum í gæðamálum og í samskiptum við viðskiptavini sem ég brenn fyrir. Í leiðinni hverf ég alveg frá rekstri svo ég geti einbeitt mér að því sem ég geri best, að selja fasteignir," segir Þóra Birgisdóttir. Þóra er hætt sem framkvæmdastjóri Borgar fasteignasölu og hefur gengið til liðs við Eignamiðlun.

„Ég fór inn í Re/Max árið 2010 en svo stofnum við nokkur fasteignasölu sem hét Re/Max Borg árið 2013, sem síðar verður Borg fasteignasala þegar við fórum út úr samstarfinu við Re/Max. Það var gríðarlega mikil reynsla sem dýpkaði mig mikið bæði sem manneskju og í faginu að stofna og reka fyrirtæki og koma því í lífvænlegt form og ég veit það mun blómstra áfram."

Þó að Þóra hafi fundið sig í sölumannstarfinu leitaði hugurinn til að byrja með út til Bandaríkjanna þar sem hún tók BA í fatahönnun og markaðssetningu. „Ég var í Kaliforníu á umrótatímum þegar Rodney King óeirðirnar gengu yfir borgina, eldar og jarðskjálftar. Námið var mjög skemmtilegt og opnaði augu mín fyrir mikilvægi þess að geta kynnt verkefni og fá gagnrýni fyrir framan stóra hópa, sem vantaði nokkuð upp á í námi og starfsþjálfun á Íslandi á þeim tíma," segir Þóra.

„Síðan ætlaði ég þarna í kringum 2007 eins og allir að vinna í fjármálageiranum og meika það svo ég fór í mastersnám í fjármálum í HÍ sem var mjög áhugavert nám að vera í, í gegnum hrunið. Síðan þegar ég kom út úr því með ágæta gráðu og fannst ég loksins vera orðin stór og vita hvað ég vildi var fjármálaumhverfið ekkert spennandi. Þá þekktu stofnendur Re/Max til mín og vildu fá mig inn og þá fannst mér ég ekki hafa fleiri nei eftir í skúffunni, en ég fann fljótt gleðina í því að vinna með fólki við að uppfylla draumana sem og oft losa um erfiðar stöður."

Þóra er gift Ingimundi Árnasyni, framkvæmdastjóra hjá Orf Líftækni, og saman eiga þau þrjú börn á aldrinum 29 ára, 17 og 18 ára. „Við erum núna sjálf í risaframkvæmdum því við vorum að kaupa draumahúsið svo ég deili með viðskiptavinum mínum angistinni við það að kaupa, selja og framkvæma. Aðaláhugamálið er útivera og skíði, ég er frá Akureyri og förum við reglulega norður á skíði og svo var dásamlegt að leigja hús í miðri hlíð í Sviss og skíða bara inn og út úr húsinu. Mögnuð gönguferð um stórbrotna náttúru Hornstranda í sjö gráðu hita og súld þannig að ég sá ekki neitt fyrir þoku og rigningu stendur samt upp úr."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.