*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 15. júlí 2021 17:16

Ganga inn í kaupin á Austurvegi

Rúmfatalagerinn nýtti forkaupsrétt sinn og eignast Austurveg 1-5 að fullu. Reitir munu kaupa hinar þrjár eignirnar af Festi.

Ritstjórn
Sigurður Bogi Sævarsson

Rúmfatalagerinn nýtti sér forkaupsrétt á helmingshlut Reita í Austurvegi 1-5 á Selfossi og gekk inn í fyrirhuguð kaup Reita á fasteigninni. Til stóð að selja helmingshlut Festis í Austurvegi til Reita samhliða sölu þriggja annarra eigna. Dótturfélag Rúmfatalagersins átti fyrir 50% hlut í húsnæðinu en þar má finna verslun Krónunnar og Rúmfatalagersins auk fleiri verslana og skrifstofurýmis.

Reitir munu engu síður kaupa hinar þrjár fasteignirnar af Reitum samkvæmt tilkynningu frá félaginu, sem eru við Háholt 13-15 í Mosfellsbæ, Dalbraut 1 á Akranesi og Hafnargötu 2 á Reyðarfirði. Heildarvirði kaupanna verður tæplega 3,3 milljarðar króna. Við það hækka leigutekjur Reita á ársgrunni um 254 milljónir króna og áætlaður rekstrarhagnaður (NOI) um 196 milljónir króna.

Í upphaflegu tilkynningunni kom fram að áætlað kaupverð eignanna fjögurra yrði 4,15 milljarðar króna. Því má áætla að fyrirhugað kaupverð fasteignarinnar á Austurvegi hafi numið um tæplega 860 milljónum króna.

Þá var greint frá því að Krónan myndi gera 15 ára leigusamning við Reiti á Dalbraut og Hafnargötu og einnig á Austurvegi, sem ekki verður af.

Þó er settur sá varnagli á kaupin að vinnsla áreiðanleikakannana á eignum standi yfir en afhending eignanna á að fara fram að öllum fyrirvörum uppfylltum.

Stikkorð: Krónan Reitir Rúmfatalagerinn Festi Austurvegur