*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 1. nóvember 2015 15:29

Ganga til atkvæða um vinnustöðvun

Talsmaður starfsmanna Rio Tinto Alcan í Straumsvík segir að áróður sé rekinn af stjórnendum álversins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Starfsmenn Rio Tinto Alcan í Straumsvík greiða nú atkvæði um hvort boða eigi til vinnustöðvunar frá og með 2. desember, hafi ekki samist fyrir þann tíma í kjaradeilu þeirra við fyrirtækið. Þetta kemur fram í frétt RÚV um málið. 

Kjarni kjaradeilu Rio Tinto Alcan í Straumsvík og starfsmanna álversins er krafa þess um að fá að bjóða fleiri stöðugildi út í verktöku sem starfsmenn hafa hafnað.

Gylfi Ingvarsson talsmaður starfsmanna segir í samtali við RÚV að viðræður hafa verið komnar af stað um tíma, og það hafi liðkað fyrir þegar allsherjarverkfalli sem átti að hefjast fyrsta september, og sex vikna yfirvinnubanni hafi verið aflétt. Hann segir að áróður sé rekinn af stjórnendum álversins. „Það jaðrar við að það sé brot á vinnulöggjöfinni um afskipti af kjaramálum og afstöðu starfsfólks í kjarabaráttu. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt,“ segir Gylfi í samtali við RÚV um málið.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verður kynnt á fimmtudaginn og ef boðun allsherjarverkfalls verður samþykkt hefst það 2. desember hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma.