Nú þegar útlit er fyrir að einungis verði hóflegur vöxtur í ferðaþjónustu og öðrum greinum sem byggja á auðlindum eftir samdrátt greinarinnar á þessu ári liggur fyrir að Íslendingar þurfa að líta til annarra greina til að standa undir útflutningsvexti næstu árin. Í síðustu viku fór fram Tækni- og hugverkaþing Samtaka iðnaðarins undir yfirskriftinni Stórsókn til framtíðar. Á þinginu komu meðal annars fram fulltrúar úr fimm mismunandi starfsgreinum sem eiga það sameiginlegt að falla undir tækni- og hugverkaiðnað en greinarnar eru gagnaver, upplýsingatækni og fjarskipti, líf- og heilbrigðistækni, kvikmyndaiðnaður auk tölvuleikjaiðnaðar. Starfsemi sem fellur undir þennan flokk á það sameiginlegt að stunda rannsóknir, þróun og nýsköpun, er ekki háð náttúruauðlindum hvað varðar stækkunareða vaxtarmöguleika og hefur einnig verið kölluð alþjóðageirinn sem stóð undir 24% af útflutningstekjum á síðasta ári.

„Við hjá Samtökum iðnaðarins leggjum áherslu á að það þurfi að auka fjölbreytileika í útflutningstekjum þjóðarbúsins og þess vegna höfum við lagt mikla áherslu á hugverkaiðnaðinn. Við þurfum að átta okkur á því að helsta leiðin til sóknar í framtíðinni er að tryggja sem best starfsskilyrði fyrir tækni- og nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI.

„Við þurfum að leggja miklu meira á okkur í þessum efnum. Fókusinn hefur verið á okkar rótgrónu atvinnugreinum  á undanförnum árum. Svo fengum við þessa aukningu ferðamanna í fangið sem bjargaði okkur að mörgu leyti fyrir horn án þess að við værum búin að móta okkur atvinnustefnu.“

Að mati Sigríðar er hagkerfið komið að ákveðnum endimörkum hvað varðar auðlindir og því sé mikilvægt að horfa til annarra þátta til að takast á við áskoranir næstu ára. „Auðvitað stýra stjórnvöld ekki atvinnuuppbyggingu í landinu að öllu leyti og við viljum auðvitað ekki að stjórnvöld séu að vasast í því hvaða greinar  vaxa og dafna. Það er samt sem áður staðreynd að hið opinbera er mjög umsvifamikið og að öll löggjöf, það hvernig skattkerfið er útfært og ýmislegt annað í ákvarðanatöku stjórnvalda sem hefur vissulega bein áhrif á það hvaða greinar ná að blómstra. Það þarf að taka markvissar ákvarðanir í dag til þess að byggja undir þennan vöxt til framtíðar.

Við þurfum að taka meðvitaða ákvörðun um hvernig samfélag við ætlum að byggja til framtíðar á Íslandi. Hvað það er sem skiptir máli í tengslum við t.d. þær áskoranir sem eru framundan í heilbrigðis- og velferðarmálum á næstu áratugum. Við setjum því þessar greinar undir sama hatt, þær eru tilbúnar í stórsókn og það þarf að vera stefna hjá stjórnvöldum um hvert við erum að fara og þeirri stefnu verða að fylgja aðgerðir.“

Stangist ekki á

Samtök iðnaðarins hafa á síðustu misserum kallað eftir því að stjórnvöld móti atvinnustefnu til framtíðar sem önnur stefnumótun taki mið af. „Það sem við eigum við með því er að stefnur í mismunandi málaflokkum þurfa að ganga í takt að sama marki.“

Eitt dæmi um þetta er að það var verið að móta heilbrigðisstefnu til ársins 2030 en þar er ekki tekið mið af því að við erum með öflugan heilbrigðistækniiðnað á Íslandi sem er að þróa lausnir sem geta hjálpað okkur  að takast á við sívaxandi kröfur og útgjöld vegna heilbrigðismála inn í framtíðina. Á sama tíma er komin út nýsköpunarstefna og skilaboðin í tengslum við hana eru t.d. að tækni sem verður til í atvinnulífinu sé nýtt í rekstri hins opinbera. Þarna ganga  heilbrigðis- og nýsköpunarstefna ekki í takt að mínu mati. Þetta er nákvæmlega það sem við höfum verið að benda á sem er að það er verið að móta fjölmargar stefnur en það eru hins vegar mörg dæmi þess að þær jafnvel stangist á við hver aðra sem er auðvitað ekki gott.

Það þarf fyrst og fremst að taka ákvarðanir um hvers konar atvinnuuppbyggingu við viljum sjá hérna, án þess þó að útiloka eitthvað annað, en að stjórnvöld geti með ýmsum aðferðum bæði hvatt og latt hegðun á einkamarkaði. Þetta er það sem hefur vantað gagnvart hugverkaiðnaðinum, að mikilvægi hans til framtíðar fyrir Ísland sé á forgangslista hjá stjórnvöldum.

Ein hindrun heilbrigðistæknifyrirtækja hér á landi er t.d. hvernig heilbrigðiskerfið tekur við lausnum frá atvinnulífinu, íslensk nýsköpunarfyrirtæki í heilbrigðistækni hafa jafnvel átt auðveldara með að selja sína tækni til ríkisspítala í löndunum í kringum okkur heldur en inn á Landspítalann. Innkaupastefna hins opinbera og sérstaklega í heilbrigðiskerfinu getur stutt við öflugan heilbrigðistækniiðnað. Það er ótrúlegt að heilbrigðiskerfið sé feimið við að kaupa lausnir frá litlum íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum og að þau gangi á vegg í sínu eigin landi. Það er því í mörgum tilfellum þannig að skilaboðin fara ekki alveg saman við raunveruleikann.“

Nánar er rætt við Sigríði í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .