*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 13. febrúar 2020 18:59

Gangi á undan með góðu fordæmi

Forsætisráðherra segir ánægjulegt hve vel einkaaðilar hafa komið til móts við stjórnvöld í orkuskiptunum.

Jóhann Óli Eiðsson
Gígja Einars

Ekki er nægilegt að almenningur taki til hendinni þegar kemur að umhverfisvernd og loftslagsvánni heldur þurfa stjórnvöld og einkageirinn að ganga á undan með góðu fordæmi. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Ráðherrann varr meðal ræðumanna á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands þetta árið en yfirskrift þingsins er „Á grænu ljósi – fjárfestingar og framfarir án fótspors“. Á undanförnum misserum hafa stjórnvöld gripið til ýmissa aðgerða til að leggja sitt á vogarskálarnar.

„Við höfum bæði innleitt græna skatta og skattaívilnanir. Oftar en ekki eru einstaklingar og fyrirtæki spenntari fyrir því síðarnefnda en það er mikilvægt að þetta tvennt fari saman,“ segir Katrín.

Hún bendir á að langtímamarkmiðið með grænum sköttum sé ekki að afla ríkinu tekna heldur þvert á móti að reyna að eyða tekjustofnum. Dæmi um slíkt eru til að mynda álögur á bifreiðar sem knúnar eru jarðefnaeldsneyti meðan aðrir orkugjafar njóta ívilnana. Náist markmið um að draga verulega úr fjölda og útblæstri frá ökutækjum er því viðbúið að leita þurfi nýrra leiða til að fjármagna vegakerfið.

„Sem stendur erum við í yfirfærslufasa þar sem fleiri og fleiri eru að velja aðra orkugjafa en hefðbundið eldsneyti. Kerfið hefur verið byggt upp á olíugjöldum og það er rétt að á næstu árum munum við sjá breytingar þar sem þessar tekjur ríkisins munu hægt og bítandi fara niður á við. Þá er það alveg rétt að við munum þurfa að feta nýjar slóðir í framtíðarfjármögnun þessa málaflokks. Það er meðal annars af þeim sökum sem umræða um veggjöld hefur farið af stað,“ segir Katrín.

Mikil aukning hefur verið á sölu rafknúinna bifreiða að undanförnu og þá má einnig merkja aukningu í að fólk nýti reiðhjól og rafhjól til að komast milli staða. Fyrir jól voru samþykkt lög sem veita ívilnun af virðisaukaskatti við kaup á slíkum farartækjum.

Gerbreyting á stuttum tíma

„Fólk hefur verið að skipta yfir í umhverfisvænni kosti en orkuskipti í samgöngum voru einn helsti aðgerðapunkturinn í áætluninni sem kynnt var 2018. Það hefur verið ánægjulegt að sjá einstaklinga taka þessi skref og þá hefur einnig verið sérstaklega ánægjulegt að fyrirtæki hafa komið kröftuglega að þessu verki með ríkinu,“ segir Katrín.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði um Viðskiptaþing sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér