Suður-kóreski tónlistarmaðurinn Park Jae-sang, sem betur er þekktur sem Psy, hefur haft 8,8 milljónir dala, jafnvirði rúmlega 1,1 milljarðs íslenskra króna, í tekjur af lagi sínu Gangnam Style. Ljóst er að tæknibyltingin hefur gert mikið fyrir Psy enda hefur hann aðeins selt um 100 þúsund geisladiska með laginu.

Vídeóið við lagið er eitt það vinsælasta á YouTube og hefur það verið sótt 900 milljón sinnum. Fram kemur í samantekt netsíðunnar Celebritynetworth að Psy fái hlut af auglýsingasölu á YouTube-síðu sinni. Búist er við að þessi tekjuleið muni skila honum einni milljón dala á árinu. Þá hafa þrjár milljónir eintaka af því verið seld í iTunes-verslun Apple á netinu. Reiknað er út á síðunni að það skili honum um 2,6 milljónum dala eftir að Apple hefur tekið sinn 30% toll. Streymi á laginu eftir hinum ýmsu leiðum, s.s. á tónlistarsíðunni Spotify, skilar honum líklega um 200 þúsund dölum til viðbótar. Mestu munar hins vegar um auglýsingasamninga hvers konar við Samsung, LG og fleiri fyrirtæki í heimalandi hans. Samkvæmt útreikningum Celebritynetworth er reiknað með að auglýsingasamningar hafi skili honum 5 milljónum dala á síðastliðnu hálfu ári.

Hér má sjá þetta ótrúlega vinsæla myndband. Þeir sem skoða það gætu aukið tekjur Psy frekar.