*

sunnudagur, 25. október 2020
Innlent 19. september 2020 13:09

Gangsetja í fyrsta lagi á nýju ári

Verksmiðja PCC á Bakka við Húsavík verður lokuð í fimm mánuði hið minnsta vegna viðgerða og lágs heimsmarkaðsverðs.

Ritstjórn
Kísilver PCC er staðsett á Bakka við Húsavík við Skjálfanda.
Aðsend mynd

Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC Bakka, segir viðgerðir á þaki verksmiðjunnar við Húsavík vera lokið, en enn sé verið að reyna að átta sig á vandamálinu við annan ofna hennar sem notaðir eru til framleiðslu kísilmálms.

Til viðbótar, eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur innflutningur á kísilmálmi frá Íslandi verið til skoðunar í Bandaríkjunum þar sem félagið hefur verið sakað um undirboð, er enn ekki útséð um það hvort bandarísk stjórnvöld leggi allt að 48% toll á kísilmálm héðan sem verksmiðja PCC á Bakka stendur undir framleiðslunni á.

„Verktakinn hefur lokið sinni vinnu við þakið, það gekk alveg prýðilega,“ segir Rúnar en frá gangsetningu verksmiðjunnar hafa komið upp nokkur tilfelli af lykt frá verksmiðjunni.

„Viðgerðin snerist um hvað var að komast út, lykt og annað, bara ákveðin afköst, en það er nú leyst. Þetta var bara vanhönnun frá upphafi af hálfu verktakans.“

Rúnar segir að ekki standi til að gera prófanir á því að gangsetja ofna verksmiðjunnar aftur í bráð, en slökkt var á ofnum verksmiðjunnar í lok júlímánaðar.

„Við erum núna að grafa upp ofn 1 og því verki er ekki lokið, það er hreinsa hann og taka í sundur ofan í drep, og bindum við vonir til þess að komast að rót vandans þegar nær dregur,“ segir Rúnar.

„Ég vonast til þess að það klárist í september, en við getum ekkert farið að ræsa fyrr en við sjáum til lands með markaðinn. Heimsmarkaðsverð hefur lækkað um svona 25% eftir Covid, og þá erum við bara að borga með hverju tonni. Ég hef sagt að bjartsýnasta spá sé að við getum byrjað aftur upp úr áramótum.“

Hér má sjá fleiri fréttir um framleiðslu kísilmálms á Íslandi: