Gangur er í samningaviðræðum Samtaka atvinnulífsins, Flóafélaganna, VR og Landssambands íslenskra verslunarmanna en næsti fundur verður á sunnudag. Kemur þetta fram í Morgunblaðinu í dag.

„Við byrjuðum fundinn ferlega neikvætt en svo var lagt fram nýtt plagg með breyttum áherslum og framsetningu. Við sátum yfir því og tölurnar eru nær því að vera okkur að skapi og það verður áfram unnið með það. Það má segja að þetta hafi verið jákvæðasti dagurinn hingað til,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, sem er aðili að Flóabandalaginu í samtali við Morgunblaðið.

Ekkert þokaðist hins vegar í viðræðum BHM og ríkisins í gær og er næsti samningafundur boðaður á mánudag. „Það var farið að hreyfast aðeins en við erum áhyggjufull yfir stöðunni,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, og bendir á að kurr sé í sínum félagsmönnum yfir ástandinu. Sú hugmynd kom upp innan samninganefndar BHM að herða aðgerðir en ákveðið var að bíða með það um stund.