Smásalinn Gap tapaði um 932 milljónir dollara, eða um 122,9 milljarða íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi fjárhagsársins. Fyrirtækið skilaði hagnað upp á 227 milljónir dollara á sama tímabili, sem nær frá byrjun febrúar og út apríl, í fyrra.

Eigið fé Gap lækkaði um tæpan milljarð dollara milli ársfjórðunga en eiginfjárhlutfall fyrirtækisins stendur nú í 18,2%. Heildarsala Gap, sem á einnig Banana Republic og Old Navy, lækkaði um 43% á tímabilinu milli ára en Sonia Syngal, forstjóri Gap, sagði að netsala hafi þó aukist að undanförnu.

Gap Inc. lokaði öllum verslunum sínum í Norður-Ameríku þann 19. mars síðastliðinn vegna heimsfaraldursins en hefur opnað aftur um 1.500 verslanir. Meira en 80 þúsund af 130 þúsund starfsmönnum fyrirtækisins voru settir í launalaust leyfi vegna lokananna.

Gap á einnig í lagadeilum við fasteignafélagið Simon Property Group, stærsta eigenda verslunarmiðstöðva í Bandaríkjunum, þar sem fatasmásalinn neitaði að borga leigu fyrir verslanir sem voru lokaðar tímabundið vegna kórónuveirunnar, en þetta kemur fram í frétt BBC .

Fasteignafélagið sagði í málsókn sem lögð var fram í vikunni að Gap skuldi félaginu þriggja mánaða leigu sem samtals nemi um 65,9 milljónir dollara.

Simon Property lokaði öllum verslunarmiðstöðvum sínum í mars eftir að helstu smásalarnir verslunarkjarnanna lögðu tímabundið niður starfsemi vegna Covid. Gap rekur meira en 390 verslanir í verslunarmiðstöðvum Simon Property sem eru staðsettar í Indianapolis.