Garðar Thór Cortes kemur fram í sjónvarpsþætti Alan Titchmarsh á sjónvarpsstöðinni ITV í Bretlandi í dag. Þátturinn í dag er fyrsti þáttur Alans á árinu.  Það er í annað skipti sem Alan fær Garðar í heimsókn en í haust kom söngvarinn þar fram og þáttastjórnandinn var alveg heillaður, segir í fréttatilkynningu.

Alan er einn mesti aðdáandi Garðars í breskum fjölmiðlum, segir í tilkynningunni. Í síðasta mánuði þegar Garðar söng fyrir Karl Bretaprins og eiginkonu hans Camillu, við sjósetningu Queen Viktoria, þá var Alan gestur þar líka og bauð hann Garðari að borða kvöldmat með sér og konunni sinni um borð á skipinu. Alan er einn þeirra sem líkt hefur Garðari við Pavarotti, segir í fréttatilkynningunni.

Alan hélt lengi vel úti virtum og mjög vinsælum sjónvarpsþáttum um breska náttúru og garðrækt á BBC. En hefur núna fært sig um set yfir á ITV þar sem hann heldur úti almennum spjallþætti og er þátturinn á dagskrá alla virka daga milli 15:00 og 16:00.