Af fjórum stærstu sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins var Garðabær það eina sem flaggaði íslenska þjóðfánanum á opinberum fánadögum lýðveldisins samkvæmt óformlegri könnun Viðskiptablaðsins. Fjallar bæjarstjórn Garðabæjar um málið á vef sínum , og birtir mynd af þjóðfánanum í hálfa stöng fyrir utan bæjarskrifstofurnar frá því á Föstudaginn langa.

Engir þjóðfánar sáust þó á öðrum opinberum byggingum í bænum eins og kveðið er á um í íslensku fánalögunum. Önnur sveitarfélög sem könnuð voru flögguðu heldur ekki þjóðfánanum á sínum opinberu byggingum, hvorki við bæjarskrifstofur né aðrar opinberar byggingar.

Sáust einungis þjóðfánar við kirkjur í Hafnarfirði en engar stofnanir eða skóla. Í Kópavogi sáust ekki einu sinni flaggað þjóðfánum við Kópavogskirkju, hvað þá bæjarskrifstofurnar eða skóla í bænum. Í Reykjavík voru engir þjóðfánar á opinberum byggingum á vegum sveitarfélagsins, hvorki Ráðhúsinu við tjörnina, grunn- og leikskóla né við borgarleikhúsið.

Hér má sjá myndasíðu yfir það hve vel er farið eftir fánalögunum í mismunandi opinberum stofnunum frá nýliðnum Páskum. Flestar myndirnar eru teknar á föstudeginum þegar himininn var fagurblár en mjög víða blakti enginn þjóðfáni undir skýlausum bakgrunninum.