Garðabær gerði samninga við Nýherja um tölvukaup, tölvulán og kaup á þjónustu frá fyrirtækinu, upp á samtals 120 milljónir íslenskra króna á síðasta kjörtímabili, á árabilinu 2006 til 2010. Samningarnir voru allir byggðir á tilboðum Nýherja og voru þar af leiðandi ekki gerðir eftir útboð Garðabæjar, að því er segir í Fréttablaðinu .

Oddviti Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma var Erling Ásgeirsson, en Sjálfstæðisflokkurinn fór þá eins og nú með stjórn bæjarfélagsins. Þegar samningarnir voru gerðir var hann framkvæmdastjóri hjá Nýherja. Starfinu sinnti hann frá 1992 til 2008 þegar hann varð framkvæmdastjóri Sense ehf., dótturfyrirtækis Nýherja.