Bæjaryfirvöld í Garðabæ eiga í viðræðum við fjármálaráðuneytið um að bæjarfélagið eignist Vífilsstaði, sem er í eigu ríkisins í dag. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir að vilji sé til þess að friðlýsa hluta landsins. Að hans sögn er nú verið að meta landið og í framhaldinu verði fundað með ráðuneytinu um framvinduna.

Spurður um hvort möguleg kaup bæjarins á landinu tengist aðkomu ríkisins að sameiningu Garðabæjar og Álftaness þvertekur hann fyrir að svo sé. Hann hafi hins vegar heyrt slíkar raddir en málin séu algjörlega aðskilin. Allt liggi fyrir varðandi mögulega sameiningu, en kosið verður um hana í haust.