Garðar Stefánsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Via Health ehf. Fyrirtækið sérhæfir sig í náttúrulegum sætuefnum og sykurlausum heilsuvörum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Garðar Stefánsson er hagfræðingur, útskrifaður frá Háskóla Íslands, og með meistaragráðu í markaðs- og nýsköpunarfræðum frá Háskólanum í Árósum. Garðar stofnaði og var áður framkvæmdarstjóri Norður & Co ehf. sem framleiðir Norðursalt á Reykhólum. Eftir að hann lauk störfum fyrir Norður & Co starfaði hann sem ráðgjafi fyrir Via Health og hefur í kjölfarið verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Eiginkona Garðars er Magdalena Sigurðardóttir, arkitekt, og eiga þau tvær dætur.

Haft er eftir Garðari í tilkynningunni að meginmarkmið Via Health sé að berjast gegn sykurneyslu með því að bjóða upp á náttúrulega sætu og heilsusamlegar vörur undir vörumerkinu Good Good. Einnig er haft eftir Jóhanni Inga Kristjánssyni, stjórnarformanni Via Health, að sú mikla reynsla og þekking sem Garðar kemur með í fyrirtækið muni nýtast Via Health vel í þeim leiðangri sem fyrirtækið leggur nú í.