*

þriðjudagur, 13. apríl 2021
Fólk 25. september 2020 14:24

Garðar stýrir Rapyd Europe

Fjártæknifyrirtækið Rapyd hefur ráðið Garðar Stefánsson sem forstjóra dótturfyrirtækisins Rapyd Europe, sem áður hét Korta.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Alþjóðlega fjártæknifyrirtækið Rapyd hefur ráðið Garðar Stefánsson sem forstjóra dótturfyrirtækisins Rapyd Europe, sem áður hét Korta, en Rapyd keypti Korta fyrr á þessu ári. Garðar starfaði áður sem framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Korta. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Undir forystu Garðars mun félagið einbeita sér að innri vexti og fjölgun starfsfólks á Íslandi, en um leið styðja við vaxandi umfang samstæðunnar í Evrópu,“ segir í tilkynningunni.

Jakob Már Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri Korta, mun hefja störf hjá samstæðunni sem ráðgjafi á sviði samruna og yfirtaka.

„Framundan eru spennandi tímar fyrir Rapyd Europe. Garðar býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu á þessum markaði, sem gagnast mun afar vel þegar kemur að því að takast á við áskoranir framtíðarinnar.

Við þökkum Jakobi Má kærlega fyrir afar vel unnin störf og bjóðum hann velkominn til starfa á öðrum vettvangi innan samstæðunnar," segir Arik Shtilman, stjórnarformaður Rapyd í fréttatilkynningunni.