Alþjóðlega fjártæknifyrirtækið Rapyd hefur ráðið Garðar Stefánsson sem forstjóra dótturfyrirtækisins Rapyd Europe, sem áður hét Korta, en Rapyd keypti Korta fyrr á þessu ári. Garðar starfaði áður sem framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Korta. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Undir forystu Garðars mun félagið einbeita sér að innri vexti og fjölgun starfsfólks á Íslandi, en um leið styðja við vaxandi umfang samstæðunnar í Evrópu,“ segir í tilkynningunni.

Jakob Már Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri Korta, mun hefja störf hjá samstæðunni sem ráðgjafi á sviði samruna og yfirtaka.

„Framundan eru spennandi tímar fyrir Rapyd Europe. Garðar býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu á þessum markaði, sem gagnast mun afar vel þegar kemur að því að takast á við áskoranir framtíðarinnar.

Við þökkum Jakobi Má kærlega fyrir afar vel unnin störf og bjóðum hann velkominn til starfa á öðrum vettvangi innan samstæðunnar," segir Arik Shtilman, stjórnarformaður Rapyd í fréttatilkynningunni.