Skúli Gunnar Sigfússon, oft kallaður Skúli í Subway, var ekki nema 27 ára þegar hann opnaði fyrsta Subwaystaðinn þann 11. september árið 1994 í Faxafeni. Skúli hafði þremur árum áður útskrifast úr háskóla í Phoenix í Arizona ríki Bandaríkjanna þar sem hann lærði fjármálafræði. Staðirnir eru nú orðnir 24 talsins.

Þegar fyrsti Subway-staðurinn var opnaður var enginn veitingastaður á Íslandi sem bauð upp á sambærilega vöru að sögn Skúla. „Nei, Hlöllabátar voru til en það er náttúrulega allt önnur vara í raun og veru. McDonaldsopnaði ári á undan okkur og þeir eru náttúrulega ekki lengur hérna.“ Síðasti McDonalds-staðurinn á Íslandi lokaði árið 2009.

„Þetta hefur gengið vel ár frá ári og alltaf verið mikil söluaukning, en hún getur auðvitað ekki verið endalaus. Núna er salan svipuð ár frá ári þannig að við erum náttúrulega búin að metta markaðinn upp að vissu marki þó að það séu ennþá tækifæri til staðar. Við erum komin með 24 staði í rúmlega 300.00 manna landi.“ Skúli segir að ekki séu áform um mikla fjölgun Subway staða á næstu árum, en Garðbæingar munu þó líklega fá Subway stað á Garðatorgi næsta vor.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .