Almar Guðmundsson var í vikunni ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.Almar segir nýja starfið leggjast mjög vel í sig. „Það eru mörg spennandi verkefni fram undan og um leið er það krefjandi áskorun að efla starf samtakanna í samstarfi við aðildarfélög, stjórn og starfsfólk.“ Almar mun hefja störf þann 1. október og segist munu reyna að nýta tímann vel þar til hann hefur formlega störf. „Það er í þessu eins og öðru að heimavinnan skilar sér og því eins gott að taka hana föstum tökum,“ segir Almar.

Almar hefur verið framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda síðastliðin fimm ár. Hann segist því hafa ágæta reynslu í því að starfa fyrir samtök atvinnurekenda. „Það hefur verið mér dýrmæt reynsla að starfa fyrir FA og kynnast öllu því góða fólki sem tengist félaginu,“ segir Almar. Áður en hann gekk til liðs við FA vann hann lengi hjá Glitni og segir hann það hafa verið skemmtilegan tíma. Þá hefur hann einnig fengist við kennslu við Háskólann í Reykjavík undanfarin ár. „Það er ofsalega hollt og gefandi að kenna aðeins með aðalstarfinu,“ segir hann.

Almar hefur búið mestalla sína tíð í Garðabæ. Hann segist ákaflega stoltur af þessum uppruna því honum þykir Garðabær bæði gott samfélag og vel rekið sveitarfélag. Almar er kvæntur Guðrúnu Zoega hjúkrunarfræðingi og saman eiga þau fimm börn á aldrinum tveggja til átján ára. „Það er því líf og fjör á heimilinu frá því snemma að morgni þar til seint á kvöldin,“ segir Almar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .