Rekstur Garðheima hefur upplifað mikinn uppgang sökum kórónufaraldursins. Framkvæmdastjóri félagsins, Kristín Helga Gísladóttir, gerir ráð fyrir tvöföldun ef ekki þreföldun hagnaðar árið 2020, samanborið við 2019. Heildarsala félagsins hefur aukist um 26% fyrstu fimm mánuði ársins, samanborið við sama tímabil í fyrra. Fyrsti ársfjórðungur rekstursins 2020 var sambærilegur og á síðasta ári, en að sögn Kristínar tók salan að aukast verulega um miðjan apríl.

„Mesta aukningu er að finna á sölu inni- og útiplantna og um leið á tengdum vörum svo sem pottum, mold og fræjum. Við höfum verið að finna fyrir auknum áhuga á þessum vörum síðustu ár, en nú eftir COVID varð algjör sprenging hjá okkur. Við erum meðal annars að sjá yngri viðskiptavini, oft á tíðum fólk sem aldrei hefur komið nálægt garðyrkju. Margir eru einnig að taka sín fyrstu skref í eigin ræktun nú um mundir, sem er mjög ánægjulegt enda um vistvænni kost að ræða heldur en aðkeypt grænmeti,“ segir Kristín en inni- og útiplöntur standa fyrir um 23% af heildarsölu félagsins. Sá hluti rekstursins hefur verið að vaxa ört en frá 2015 hefur sala á úti- og inniplöntum vaxið um 90%.

Framboð annar ekki eftirspurn

Spurð út í áætlaðar sölutölur fyrir síðari hluta ársins segir Kristín óvissuna mikla. „Þetta er rosalega mikill óvissutími sem er fram undan, það hefur eiginlega ekki verið hægt að gera áætlun þetta árið. Það sem mestu ræður um hvernig mun ganga síðari hluta sumarsins er framboð plantna. Við viljum hafa sem mest íslenskt en íslenska framleiðslan, af til dæmis sumarblómum, nær ekki að anna eftirspurn.“

Sumar plöntur eru því fluttar inn, en eftir opnun markaða á meginlandinu er mikil töf á afhendingartíma. „Það voru miklar lokanir á búðum í sama bransa og við á meginlandi Evrópu. Þegar þær búðir opnuðu aftur nú nýlega jókst eftirspurnin mikið. Birgjar hafa því átt erfitt með að mæta þeirri eftirspurn og höfum við því verið að taka eftir lengri afhendingartímum.“ Innkaup félagsins fyrir næstkomandi haust hafa þó lítið breyst frá fyrra ári.

„Við erum að miða pantanir okkar við hefðbundið haust, fyrir utan að fermingar munu eiga sér stað í ágúst og september, fremur en um vorið. Það er nefnilega þannig að sumar vörur þarf ekki að panta með miklum fyrirvara. Við höfum því alltaf eitthvert svigrúm til þess að mæta þessari umframeftirspurn, ef þess þarf. Aðrar vörur, svo sem jólaseríur, þurfa hins vegar að vera pantaðar með árs fyrirvara.“ Það vill því svo heppilega til fyrir félagið að eftirspurn hér heima hefur aukist eftir vörum sem auðvelt er að fá með litlum fyrirvara.

Samhliða óvissu sem fylgir takmörkuðu framboði nefnir Kristín tvö önnur atriði sem gera erfitt fyrir að áætla rekstur það sem eftir lifir árs. „Óvíst er hvort breytt neyslumynstur neytenda er komið til að vera en að auki er óljóst hvaða efnahagslegu áhrif COVID kann að hafa á kaupmátt Íslendinga.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Framkvæmdastjóri Nordic Car Rental segir mikil tækfæri í ferðaþjónustu þrátt fyrir erfitt árferði.
  • Forstjóri Icelandair segir lending verði að nást í kjaraviðræðum við flugfreyjur.
  • Fjallað er um dómsmál Glitnis HoldCo gegn Orkuveitu Reykjavíkur.
  • Úttekt á bandaríska hlutabréfamarkaðnum.
  • Rætt er við Konráð S. Guðjónsson, hagfræðing Viðskiptaráðs, um samkeppnishæfni og efnahagsmál.
  • Fjallað er um smáforrit, sem auðveldar fólki að komast í samband við fanglærða iðnaðarmenn.
  • Margrét Ormslev nýr sjóðsstjóri hjá Brunn Ventures er í spjalli.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um hagfræðiprófessora og þingið.