Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, segir að sveitarfélagið hafi meiri áhuga á því að selja þann litla hluta sem það eigi í HS Orku en kaupa meira. Hluturinn er um 0,3%.

Hann segir að Magma Energy hafi spurst fyrir um hlutinn í vor en þeim áhuga hafi aldrei verið svarað af hálfu sveitarfélagsins. Afstaða þess hafi hins vegar breyst í kjölfar þess að Reykjanesbær ákvað að selja sinn hlut í sumar.

„Við höfðum því aftur samband fyrir um þremur vikum og spurðum hvort áhuginn væri enn til staðar. Okkur var sagt að þetta yrði skoðað." Hann segir að enn hafi engin svör borist „en við erum ekkert stressuð yfir þessu," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau hyggist safna liði til að sameinast um kaup á meirihlutanum í HS Orku. Grindavíkurbær er eina sveitarfélagið á Suðurnesjum sem hefur lýst yfir áhuga.

Fram hefur komið í Viðskiptablaðinu að stjórnvöld bindi ekki síst vonir við aðkomu lífeyrissjóðanna. Þeir hafa hins vegar enga ákvörðun tekið.

Nánar er fjallað um málefni HS Orku í Viðskiptablaðinu sem kemur út í kvöld.