Á vegum Bændasamtakanna hefur um nokkurt skeið verið unnið að því að gera fánarönd Sambands garðyrkjubænda og vörumerki sambandsins að merki fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir. Stjórn Sambands garðyrkjubænda hafnaði hins vegar ósk Bændasamtakanna þar um, að því er segir á vef Bændablaðsins.

Þórhallur Bjarnason, formaður Sambands garðyrkjubænda, segir meginástæðuna fyrir ákvörðun sambandsins vera ótti við misnotkun á fánaröndinni. Bændablaðið hefur eftir Þórhalli að garðyrkjubændur hafi í gegnum tíðina barist við fyrirtæki sem gefa til kynna að um íslenskar vörur sé að ræða þegar þær eru í raun erlendar.

Megintilgangur samræmdra merkinga er að tryggja neytendum upplýsingar um íslenskan uppruna landbúnaðarvara, að því er segir á vef Bændablaðsins.