Í tilefni umræðna um villandi og rangar merkingar á íslensku grænmeti hefur Samband garðyrkjubænda sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Samband garðyrkjubænda fagnar þeirri umræðu sem verið hefur um þá þörf að merkja grænmeti með upprunamerkingum.

Samband garðyrkjubænda telur afar mikilvægt að neytendur geti á upplýstan hátt valið á milli íslenskrar framleiðslu og erlendrar og hafa aldrei hvatt neytendur til að kaupa íslenskt bara vegna þess að það er íslenskt heldur aðeins vegna þeirra eiginleika sem íslenska grænmetið hefur.

Því er afar mikilvægt að skýrar upprunamerkingar séu á umbúðum svo neytendur geti strax áttað á sig hver framleiðir og í hvaða landi. Íslenskir garðyrkjubændur hafa um margra ára skeið pakkað og merkt framleiðslu sína með Íslensku fánaröndinni auk þess sem hver sölueining er merkt framleiðandanum. SG þekkir þess engin dæmi að fánaröndin hafi verið misnotuð til merkinga á innfluttu grænmeti

Undanfarin ár hefur hins vegar borið á því að innflytjendur grænmetis hafi pakkað því erlendis og merkt með íslenskum texta. Það sem skilur innflutt grænmeti frá því íslenska er að ekki er fánarönd eða um upprunamerkingu bónda að ræða. Það hefur í nokkrum tilvikum borið á að merkingar eru villandi eða að vörur eru ómerktar með öllu þannig að ekki er hægt að greina hvort um innflutta afurð er að ræða eða ekki.

Það átak sem íslenskir garðyrkjubændur hafa gert á undanförnum árum í merkingum og pökkun á grænmeti hefur leitt til þess að neytendur geta treyst upprunamerkingu á íslenskri framleiðslu sem er með íslensku fánaröndinni.“

Undir tilkynninguna skrifar Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjuframleiðenda