Gasverð í Evrópu náði sínu hæsta stigi frá því í byrjun mars í morgun eftir að rússneska ríkisolíufyrirtækið Gazprom tilkynnti um að gasflæði í Nord Stream 1 leiðslunni verði skert um helming frá og með morgundeginum.

Verð á framvirkum samningum sem eru tengdir við TTF, vísitölu yfir heildsöluverð á jarðgasi í Evrópu, hækkaði um 6% í gær og fór upp í 188 evrur á megavattstund. Verðið er meira en fimmfalt hærra en á sama tíma í fyrra.

Verð á jarðgasi í Evrópu var síðast hærra í byrjun mars, stuttlega eftir innrás Rússa í Úkraínu, þegar það fór upp í 200 evrur á megavattstund. Gasverð lækkaði nokkuð næstu vikurnar en hefur aftur tvöfaldast frá síðasta mánuði.

Sjá einnig: Rússar skerða gasflæði um helming

Á miðvikudaginn fer daglegt gasflæði í Nord Stream 1 niður í 33 milljónir rúmmetra en til samanburðar er flutningageta gasleiðslunnar yfir 160 miljónir rúmmetrar.

„Allir á markaðnum áttu von á að rússneskt framboð myndi minnka,“ hefur Financial Times eftir sérfræðingi hjá ráðgjafarfyrirtækinu S&P Global Commodity Insights. „En markaðurinn gerði ekki ráð fyrir að flæðið myndi falla svona hratt.“