Bill Gates, stofnandi og stjórnarformaður bandaríska hugbúnaðarrisans Microsoft, hefur keypt 6% hlut í spænska verktaka- og þjónustufyrirtækinu FCC. Gates greiddi fyrir hlutinn 113,5 milljónir evra, sem svarar til rúmra 18,7 milljarða íslenskra króna. Greint var frá kaupunum í gær og rauk gengi hlutabréfa í verktakafyrirtækinu upp um 13% í kjölfarið. Það hefur ekki verið hærra í eitt og hálft ár.

Reuters-fréttastofan og fleiri fjölmiðlar sem hafa fjallað um málið benda á að FCC er dæmigert fyrir hrun spænska efnahagslífsins sem einkenndist að viðbættu bankahruni því að ofþanin fasteignabólan sprakk með látum. Það sést vel á gengi hlutabréfa FCC sem hefur hrunið um ein 80% frá því það stóð hvað hæst í góðærinu á Spáni. Reuters hefur upp úr spænskum fjölmiðlum að sumir telji kaup Gates á hlutabréfum félagsins endurspegla aukinn áhuga erlendra fjárfesta á Spáni og endurreisn efnahagslífsins á þessum ársfjórðungi.

FCC hefur tapað háum fjárhæðum síðan kreppan skall á, fært niður stóran hluta eigna og sagt upp starfsfólki. Eftir að kreppan skall á á Spáni tóku stjórnendur að horfa utan landsteina en félagið er mjög umsvifamikið utan Spánar. Það tryggði sér m.a. í sumar samning um lagningu járnbrautar í borginni Riyadh í Sádí-Arabíu.

Með kaupum Gates á 6% hlut verður hann næststærsti hluthafi félagsins á eftir Esther Koplowitz, einni af auðugustu konu Spánar. Sjálfur hefur Gates verið á meðal ríkustu manna í heimi. Reuters segir ennfremur að kaup Gates á hlutnum geti liðkað til fyrir viðræðum stjórnenda og eigenda FCC við kröfuhafa félagsins um endurfjármögnun á um fimm milljarða evra lánum sem eru á gjalddaga á þessu og næsta ári.