Neytendastofa hefur bannað Guide to Iceland að viðhafa ýmsar fullyrðingar um stöðu fyrirtækisins á markaði á heimasíðu sinni. Ákvörðun þess efnis var tekin fyrir tæpum tveimur vikum síðan og fyrirtækinu bönnuð háttsemin frá þeim tíma. Fullyrðingarnar er þrátt fyrir það enn að finna á heimasíðu þess.

Um fjórar fullyrðingar var að ræða á borð við „Lowest prices in Iceland – Best price guaranteed“, „Largest selection of travel services“ og „Find the very best prices on the largest marketplace for Icelandic travel services“. ´

Neytendastofa sendi Guide to Iceland bréf vegna fullyrðinganna í september í fyrra og gaf fyrirtækinu frest til svars. Ekkert svar barst og var erindið ítrekað í nóvember. Forsvarsmenn fyrirtækisins áttu fund með stjórnvaldinu þar sem þeir komu sínum sjónarmiðum á framfæri en á þeim fundi var ítrekað að svar þeirra þyrfti að vera skriflegt.

Svar Guide to Iceland barst í lok janúar. Kom þar fram að félagið hefði fengið ráðgjafafyrirtæki til að gera úttekt á fullyrðingunum. Niðurstaða þeirrar úttektar var að rétt væri að fyrirtækið byði upp á fleiri ferðir en þau fyrirtæki sem næst á eftir komu. Samkvæmt úttektinni munaði um fimmtungi á Guide to Iceland og næsta fyrirtæki.

Ráðgjafafyrirtækið bar einnig saman verð en tók fram að það gæti verið erfitt mat þar sem gengi gjaldmiðla svo og lengd ferða gæti skekkt samanburð. Sú skoðun leiddi í ljós að ein ferð af 89 reyndist ekki ódýrust hjá Guide to Iceland og var sú vara tekin úr sölu.

Fyrirtækið taldi fullyrðingar sínar því standast fullkomlega en ákvað engu að síður að baktryggja sig og draga úr fullyrðingunum. Í stað tilvitnaðra fullyrðinga komu staðhæfingarnar „Low prices in Iceland – Best price guarantee“ og „Find the very best selection on the largest marketplace for Icelandic travel services“.

Að mati Neytendastofu tókst Guide to Iceland ekki að sanna fullyrðingarnar og bannaði fyrirtækinu því að viðhafa þessa viðskiptahætti. Breytingarnar þóttu heldur ekki nægilegar og að umræddar upplýsingar væru „líklegar til að valda því að hinn almenni neytandi sem auglýsingarnar beinast að, taki viðskiptaákvörðun sem hann myndi ekki annars hafa tekið.“

Guide to Iceland var því bönnuð birting fullyrðinganna frá og með 11. apríl. Í ákvörðun Neytendastofu er tekið fram að verði ákvörðuninni ekki fylgt megi fyrirtækið búast við að því verði ákveðin sekt.