Þeir farþegar sem flugu frá Keflavíkurflugvelli til Lundúna, höfuðborgar Bretlands, í síðasta mánuði höfðu að jafnaði úr 9,6 brottförum á dag að velja eða tveimur fleiri en í febrúar í fyrra. Þetta kemur fram í frétt Túrista.is.

Aukningin nemur um fimmtungi á milli ára samkvæmt talningu vefmiðilsins en Lundúnir er sú borg sem er langoftast flogið til frá Keflavíkurflugvelli. Samkeppnin er sú mesta á þeirri leið og bjóða fimm flugfélög upp á áætlunarferðir frá Keflavík til flugvallanna á Lundúnarsvæðinu.

Íslandsferðir eru talsvert vinsælli meðal Breta á veturna en á sumrin. Til dæmis komu fleiri breskir ferðamenn til Íslands í febrúar en samtals í júlí og ágúst í fyrra.

Kaupmannahöfn er sú borg sem er næst oftast flogið héðan en Ósló var þriðja algengasti áfangastaður frá Keflavíkurflugvelli í febrúar í fyrra en nú eru fleiri brottfarir til New York og París. Hægt er að skoða betur hvaða áfangastaðir eru vinsælastir í töflu sem fylgir með frétt Túrista.is.