Jort Kooistra hefur verið ráðinn sem nýr forstjóri tæknifyrirtækisins MedEye. Gauti Reynisson, fráfarandi forstjóri og annars stofnenda félagsins, hefur stigið niður sem forstjóri og mun einbeita sér að vöru- og tækniþróun félagsins sem tæknistjóri (e. Chief Technology Officer).

Kooistra býr yfir rúmlega 20 ára starfsreynslu í heilbrigðisgeiranum, en hann starfaði áður hjá Zimmer Biomet, Johnson & Johnson og Bioventus. Félagið stefnur nú að því að hefja sölu á hugbúnaði félagsins í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi og í Ástralíu.

Breyttu nafninu í þekktasta vörumerkið

Fyrirtækið hefur nú breytt um nafn, en það var áður þekkt undir nafninu Mint Solutions á Íslandi en eins og Viðskiptablaðið sagði frá stefndi fyrirtækið strax árið 2017 að því að breyta nafninu í vörumerkið sem það sé þekkt fyrir úti um heim. Hafði það árið áður fengið 650 milljóna króna fjármögnun til innleiðingar á búnaði fyrirtækisins sem hindrar mistök við lyfjagjöf.

Fyrirtækið var valinn Frumkvöðull ársins 2017 hjá Viðskiptablaðinu, en það þróar og selur lyfjaöryggislausnina MedEye, sem nú þegar er notuð af stórum hluta hollenskra sjúkrahúsa. MedEye er hugbúnaður og vélbúnaður sem er settur upp á sjúkrahúsum til að aðstoða hjúkrunarfræðinga við að gefa rétt lyf í réttu magni.

Fyrirtækið var stofnað árið 2010 og er með starfsemi á Íslandi en höfuðstöðvar í Hollandi. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti í félaginu tveimur árum eftir stofnun en aðrir hluthafar í félagnu eru LSP, Seventure Partners og BOM Capital, ásamt minni einkafjárfestum, stofnendum og starfsfólki.