Háafell ehf., fiskeldisfyrirtæki í eigu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf., hefur ráðið Gauta Geirsson sjávarútvegsfræðing sem framkvæmdastjóra félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Gauti er 28 ára Ísfirðingur og er með B.Sc. próf í sjávarútvegsfræðum frá háskólanum í Tromsø og vinnur nú að meistaraverkefni í sömu fræðum sem hann líkur næsta vor. Gauti hefur unnið fyrir Háafell frá árinu 2017 sem verkefnastjóri og þekkir því vel til reksturs og starfsemi Háafell

„Það er mikill fengur fyrir félagið að tryggja okkur starfskrafta Gauta til þess að takast á við áskoranir í ört vaxandi fyrirtæki. Og einstaklega ánægjulegt að vel menntað fólk fái starf við hæfi í heimbyggð. Hraðfrystihúsið-Gunnvör hefur verið með starfsemi hér við Djúp í rúm 80 ár og hyggst gera það áfram. Því er mikilvægt að tryggja okkur gott fólk til starfa að þeim spennandi verkefnum sem fram undan eru í fiskeldi á Íslandi," segir  Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins- Gunnvarar, í tilkynningunni.

Gauti Geirsson: „Það er heiður að fá að taka þátt í þessari uppbyggingu á vegum Háafells. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa undanfarin 20 ár öðlast mikla reynslu af fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og vandvirkni þeirra og sýn hafa heillað mig. Ég hlakka til að takast á við þessa áskorun með góðum samstarfsmönnum og er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt," segir Gauti í tilkynningunni.

Framundan er mikil uppbygging á vegum Háafells en félagið hefur stundað fiskeldi í Ísafjarðardjúpi frá árinu 2001. Háafell hefur leyfi fyrir 800 tonna eldi á laxi og regnbogasilungi í seiðaeldisstöð sinni á Nauteyri ásamt 7.000 tonna leyfi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi fyrir eldi á regnbogasilungi.