Nýstofnaða fjárfestingafélagið Gavia Invest, sem varð í gær stærsti hluthafi Sýnar, hefur farið fram á að stjórn fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækisins boði til hluthafafundar. Krafist er að umboð núverandi stjórnar verði fellt niður og ný stjórn kjörin. Þetta kemur fram í tilkynningu Sýnar til Kauphallarinnar.

Í samþykktum Sýnar er kveðið á um að boðað skuli til hluthafafundi þegar hluthafar sem ráða yfir minnst 5% hlutafjár krefjast þess. Þá sé stjórninni skylt að boða til fundar innan 14 daga frá því er henni barst krafan.

Gavia Invest á 16,08% hlut í Sýn eftir að hafa keypt allan 12,72% hlut Heiðars Guðjónssonar, fráfarandi forstjóri Sýnar, fyrir ríflega 2,2 milljarða króna í gær. Samhliða því var tilkynnt um að Heiðar muni láta af störfum fyrir lok þessa mánaðar.

Sjá einnig: Gavia bætir við sig í Sýn og vill stjórnarkjör

Jón Skaftason leiðir hópinn að baki Gavia Invest en að honum koma einnig InfoCapital, fjárfestingafélag Reynis Grétarssonar, E&S 101 ehf., sem er í eigu Jonathan R. Rubini, Andri Gunnarsson og Mark Kroloff, en Rubini hefur lengi borið nafnbótina ríkasti maður Alaska.

Í stjórn Sýnar sitja:

  • Hjörleifur Pálsson, stjórnarformaður
  • Petrea Ingileif Guðmundsdóttir, varaformaður
  • Jóhann Hjartarson
  • Páll Gíslason
  • Sesselía Birgisdóttir