Fransk-belgíska orkufyrirtækið Suez, sem er í eigu einkaaðila, og franska gasfélagið Gaz de France, sem er í eigu stjórnvalda, greindu frá því í gær að sameining fyrirtækjanna - sem hefur staðið til síðan í febrúar 2006 - væri orðin að veruleika. Í kjölfarið verður til eitt stærsta orkufyrirtæki heimsins og mun sameinað félag heita GDF Suez, en frönsk stjórnvöld ráða yfir 35% hlut í fyrirtækinu.

Að sögn forsvarsmanna félaganna mun orkurisinn spila stórt hlutverk í væntanlegri samrunahrinu í evrópska orkugeiranum á komandi árum. Markaðsvirði hins nýja félags er í kringum 90 milljarða evra og með tekjur upp á 72 milljarða evra.

GDF og Suez gera ráð fyrir því að samlegðaráhrifin sem hljótist af samruna félaganna muni nema einum milljarði evra árið 2013, eftir að teknar hafa verið með í reikninginn þær skuldbindingar sem fyrirtækin hafa gert við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.