Gazprom, stærsti orkuframleiðandi Rússlands, hefur valið StatoilHydro sem annan samstarfsaðila sinn til að vinna gas á Shtokman-svæðinu í Barentshafi. Gasauðlindarnar sem þar er að finna myndu nægja til að mæta fimmfaldri orkuþörf Rússlands á einu ári.

Norska olíu- og gasfyrirtækið StatoilHydro mun fá 24% hlutafjáreign í Shtokman-verkefninu sem Gazprom fer fyrir, en rússneski orkurisinn á leyfið til að vinna gas á Shtokman-svæðinu. StatoilHydro verður í kjölfarið annað erlenda fyrirtækið - á eftir franska félaginu Total sem fékk 25% hlutafjáreign - til að gerast samstarfsaðili að hinu gríðarstóra gasvinnsluverkefni, en heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður á bilinu tuttugu til þrjátíu milljarðar Bandaríkjadala. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir orkufélögin: Gasauðlindirnar á Shtokman-svæðinu eru taldar vera á bilinu 3.200 til 3.700 milljarðar rúmmetra, en það er meira en fimmföld orkunotkun alls Rússlands á einu ári.

Nánar er fjallað um samkomulagið í Viðskiptablaðinu.