General Electric (GE) mun taka um það ákvörðun á næstu dögum hvort félagið hyggist leita til Pearson, sem meðal annars gefur út Financial Times, um að leggja fram sameiginlegt yfirtökutilboð í Dow Jones útgáfufélagið, en í síðasta mánuði gerði Rubert Murdoch fimm milljarða tilboð í félagið, sem var um 65% yfir markaðsvirði Dow Jones.

Í frétt Financial Times í gær segir að einn möguleikinn sem hafi verið ræddur á meðal GE, sem er eigandi að viðskiptasjónvarpsstöðinni CNBC, og Pearson, er að Bancroft fjölskyldan, sem fer með um 62% atkvæða í Dow Jones, yrði gerð að minnihlutaeiganda í útgáfufélaginu. Ein uppástungan gerir ráð fyrir því fjölskyldan myndi halda eftir um 20% hlut í Dow Jones - afgangurinn yrði í eigu GE og Pearson - og með því móti myndi henni takast að tryggja sér áframhaldandi ítök í félaginu sem það hefur verið eigandi að í meira en hundrað ár. Heimildarmenn Financial Times ítreka hins vegar að þessar umræður séu aðeins á byrjunarstigi og enn með öllu óljóst hvort af þeim verði. Hvorki GE og Pearson vildu tjá sig um þessar sögusagnir í fjölmiðlum í gær.

Einn meðlimur Bancroft fjölskyldunnar sagði í samtali við Financial Times að Pearson og GE myndu "ná betur saman" á fjölmiðlalegum grundvelli við Dow Jones og Wall Street Journal, bandaríska viðskiptablaðið sem félagið er eigandi að, heldur en News Corp. fjölmiðlaveldi Murdochs myndi gera. Hann bætti því aftur á móti við að það væri enn nægur tími til stefnu og fjölskyldan myndi skoða alla kosti sem uppi væru gaumgæfilega áður en ákvörðun yrði tekin.

Það er jafnframt hald manna sem vel þekkja til stöðu mála að það séu skiptar skoðanir uppi á meðal hluthafa Pearson hversu skynsamlegt það væri að ráðast í yfirtöku á Dow Jones. Simon Wallis, hjá verðbréfafyrirtækinu Collins Stewart, segir að hluthafar muni hafa af því töluverðar áhyggjur ef stjórnendur Pearson hyggjast leggja fram tilboð í Dow Jones sem er langt umfram markaðsvirði félagsins. "Margir fjárfestar myndu fremur vilja sjá Pearson selja Financial Times heldur en að veita meiri fjármunum til þess að efla blaðið enn frekar".

Jeffrey Immelt, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður GE, hefur einnig viðrað áhyggjur sínar um að yfirtaka Dow Jones, sökum þeirrar áhættu sem fylgir því að fara út í dagblaðarekstur. Hins vegar er það ávinningurinn af því að komast yfir vefsvæði Dow Jones á borð við WSJ.com er það sem GE lítur fyrst og fremst hýrum augum til. Sumir sérfræðingar hafa auk þess bent á að með því að sameina Wall Street Journal Europe, sem hefur stærri lesendahóp í Bandaríkjunum, við Financial Times, sem er stærra í Evrópu, yrði til mjög öflug dagblaðasamsteypa og hafa mikil samlegðaráhrif fyrir starfsemi beggja félaga.