General Electric hefur samþykkt að selja heimilistækjadeild fyrirtækisins til kínverska fyrirtækisins Haier Group. Kaupverðið er 5,4 milljarðar dala, eða 700 milljarðar íslenskra króna. Upphæðin er tífölld árleg EBITDA deildarinnar samkvæmt upplýsingum frá GE.

Heimilistæki Haier eru þegar með sterka stöðu á kínverskum mörkuðum en með samningnum hyggst Haier ná sterkri fótfestu á mörkuðum utan Kína, en það hefur reynst fyrirtækinu erfitt. Kaupin fela sér sér rétt til að nota vörumerki GE á heimilistækjum í 40 ár.

Með sölunni á heimilistækjadeildinni hyggst GE leggja áherslu á iðnaðarframleiðslu, s.s. framleiðslu á þotuhreyflum og túrbínum, í stað þess að framleiða þvottavélar. General Electric hafði þegar náð samningum við sænska heimilistækjaframleiðandann Electrolux á síðasta ári en verðmæti þess samnings var um 3,3 milljarðar dala. GE hætti við söluna í desember sl. en ástæðurnar sem gefnar voru af hendi GE var að samkeppniseftirlit Bandaríkjanna hafði gert athugasemdir við samninginn.