Bandaríska risafyrirtækið General Electric hefur samið um sölu á lyfjadeild sinni til Danaher samsteypunnar fyrir 21 milljarð Bandaríkjadala, ígildi um 2.500 milljarða íslenskra króna. Financial Times greinir frá .

Larry Culp, sem tók við sem framkvæmdastjóri félagsins í október síðastliðinn – eftir að hafa verið framkvæmdastjóri Danaher – segir meiri eignasölu á döfinni, en sala lyfjadeildarinnar styrki samningsstöðu félagsins. „Fyrir söluna virkuðum við svolítið örvæntingafull, en þetta styrkir stöðuna til muna.“

Fyrirtækið hefur átt erfitt uppdráttar síðustu misseri, og sárvantað lausafé, en svo til allt kaupverðið verður greitt með lausafé. Hlutabréf í fyrirtækinu hækkuðu um 13% eftir að salan var tilkynnt, en verðið er hærra en búist hafði verið við.

GE tilkynnti í fyrra um þá fyrirætlun sína að einbeita sér aðeins að tveimur meginstoðum: flugrekstri og orkuiðnaði. Í samræmi við það hefur félagið unnið að því nýverið að selja frá sér heilbrigðisdeildina, sem lyfjadeildin er hluti af.

Til hafði staðið að bjóða út hlutafé heilbrigðishluta félagsins og skrá hann á markað, en haft er eftir Culp að óvíst sé að af því verði, í ljósi þeirrar bættu stöðu sem nú sé komin upp.