Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að geðheilbrigðisþjónusta sé eitthvað sem alltaf standi dálitið í skugganum. Þetta segir hann í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið. Páll lauk sérfræðinámi í geðlækningum í Lundúnum og síðar doktorsprófi í geðlyfjafræði. Hann hefur starfað sem deildarlæknir og yfirlæknir á geðdeildum Landspítala og var framkvæmdastjóri geðsviðs frá 2009 þar til hann varð forstjóri spítalans. Hann hefur því mikla þekkingu á málaflokknum.

Páll segir að tuttugu prósent af sjúkdómsbyrði samfélagsins hið minnsta séu tengd geðrænum vandamálum, en 8% af því fé sem veitt er til heilbrigðismála fari til þessa málaflokks. „Það er þekkt vandamál alls staðar. Við erum ekki verri en aðrar þjóðir í því og jafnvel betri en margar. Ég tel hins vegar að það sé hægt að gera geðheilbrigðisþjónustu hærra  undir höfði,‟ segir Páll en tekur jafnframt fram að það eigi hins vegar ekki allt að vera innan veggja geðsviðs Landspítala. Geðheilbrigðisvandamál séu svo algeng að það sé nauðsynlegt að færa geðheilbrigðisþjónustu nær fólki með því að færa hana í auknu mæli inn í heilsugæsluna og velferðarþjónustu. Páll segir að oft sé talað um að þriðjungur vandamála sem komi á borð heilsugæslunnar sé tengdur geðheilbrigðisvandamálum og það þurfi að vera hægt að takast á við slík vandamál þar í stað þess að vísa þeim öllum á geðsvið Landspítalans.

„Mitt markmið sem framkvæmdastjóri geðsviðs var annars vegar að efla samfélagsgeðþjónustu og byggja brýr út í velferðarþjónustuna, hins vegar að gera geðsvið LSH öflugra í sérhæfðri þjónustu sem aðrir geta ekki sinnt. Bættur aðbúnaður, aukið öryggi og síðan barátta gegn þeirri mismunun sem geðsjúkir verða oft fyrir tóku síðan mikinn tíma.,“ segir Páll.

Ítarlegt viðtal við Pál Matthíasson birtist í Viðskiptablaðinu í gær. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .