Geðhjálp hefur selt hús sitt við Túngötu 7 í Reykjavík og fá nýir eigendur það afhent fljótlega. Kaupverðið er sagt í kringum 180 milljónir króna. Geðhjálp mun í kjölfarið flytja í leiguhúsnæði í Borgartúni. Markmiðið með sölunni er að létta skuldum Geðhjálpar.

„Húsið er í döpru ástandi,“ segir Þorleifur Björnsson, stjórnarmaður í félaginu Potter ehf, sem keypti húsið. Hann bendir á að mikið þurfi að gera við það enda viðhald hússins lítið síðastliðin 18 ár eða síðan í kringum árið 1995.

Ætlunin er að leigja húsið áfram til nýrra aðila. Þorleifur segir inverska sendiráðið hafa lýst yfir áhuga á að flytja þangað inn. Ekkert sé þó fast í hendi.

Húsið er um 560 fermetrar að stærð. Einar Erlendsson arkitekt teiknaði það og var húsið byggt á árunum 1944 til 1947. Einar teiknaði m.a. hús Hjálpræðishússins og fyrrum aðalsafn Borgarbókasafnsins, Esjuberg, við Þingholtsstræti 29a. Það var Gísli J. Johnsen, kaup- ræðis- og útgerðarmaður, sem byggði það og bjó í því ásamt eiginkonu sinni Önnu E. Ó. Johnsen. Anna gaf húsið íslenska ríkið til minningar um eiginmann sinn árið 1969. Ríkið gaf svo Geðhjálp húsið árið 1998.