Líkt og alkunna er, var Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, áður trommuleikari Dimmu. Á fésbókarsíðu sinni segist Birgir oft vera spurður að því hvort hann sé nokkuð „hættur að tromma", spurning sem honum reynist flókið að svara þessa dagana.

Hann virðist þó hafa tekið kjuðana upp á nýjan leik, þar sem hann segir frá því að hann hafi undanfarið unnið að gerð nýrrar plötu með Aðalbirni Tryggvasyni, söngvara og gítarleikara Sólstafa, undir merkjum hljómsveitarinnar Bastarður. Í samtali við Viðskiptablaðið segist Birgir svo sem aldrei hafa hætt alveg að tromma, en vissulega dregið úr því.

Platan heitir Satan's loss of son, sem gæti útlagst sem Sonarmissir Satans á íslensku. Birgir segir frá því á fésbókinni að ýmsir snillingar komi við sögu á plötunni, þar á meðal Ragnar Zolberg, Þráinn Árni Baldvinsson og Flosi Þorgeirsson.

Fyrsta lag sveitarinnar, Viral Tumor, er þegar komið út á Spotify og Youtube, en um er að ræða grjóthart og grípandi kröstpönk, sem er tónlistarstefna undir áhrifum bresks pönkrokks og dauðarokks.

Í lýsingu sem fylgir nýja laginu á Youtube kemur fram að ást Aðalbjörns á tónlist verði ekki bundin einni tónlistarstefnu. Á þessari plötu nái ástríðu hans á kröstpönki nýjum hæðum og að platan sé undir áhrifum hljómsveita á borð við Napalm Death, Terrorizer, Motörhead og Disfear.

Geggjað pönk

„Þetta er alveg geðveikur hávaði, alveg geggjað pönk. Þetta er svona pönk með mjög þungum Gautaborgaráhrifum, þetta er svona 90's dauðarokk og náttúrulega bara alveg geggjað. Maður getur rekið flugfélag, maður getur flogið flugvél en að spila þessa tónlist er svipað og að fljúga einhverri orrustuþotu út í geim, þetta er náttúrulega bara eitthvað „rush"," segir Birgir í samtali við Viðskiptablaðið.

Í færslu á fésbókinni segir Birgir lagið vera hressandi lag til að læra fyrir útileguna um Verslunarmannahelgina og er þeirri ábendingu hér með komið til skila.

Satan's loss of son kemur út 29. október næstkomandi.