Bláa Lónið og HS Orka hafa samþykkt að leggja til samtals 20 milljónir króna til uppbyggingar ferðamannastaða á Reykjanesi.

Garður um merkilegar jarðminjar

Samkomulagið var gert við Reykjanes UNESCO Global Geopark ses. og verður það notað til framkvæmda við veg og bílastæði við Gunnuhver, bílastæði við Reykjanesvita og byggingu nýs áningarstaðar við Brimketil. Að auki hafa þessi verkefni fengið stuðning úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Bláa Lónið og HS Orka eru stofnaðilar að Reykjanes UNESCO Global Geopark, en Geopark er alþjóðlegt hugtak um staði innihalda merkilegar jarðminja sem vinna að því að kveikja áhuga íbúa og gesta á jörðinni, m.a. með því að vekja athygli á áhugaverðri jarðsögu, fræða og að annast landið.

Hugtakið Geopark er skilgreint af alþjóðlegum samtökum sem nefnast Global Geoparks Network en um 100 geoparkar eru aðilar að samtökunum sem starfa undir verndarvæng UNESCO.