Raforkusalinn Straumlind hyggst bjóða upp á lægri taxta á næturnar en daginn, fyrst íslenskra fyrirtækja. Slíkt fyrirkomulag tíðkast víða erlendis, en notkunarmælar hér á landi hafa hingað til ekki mælt hvenær rafmagn er notað og slíkt kerfi því ekki verið mögulegt.

Raforkuveitur hafa hins vegar þegar hafið að skipta gömlu mælunum út fyrir snjallmæla sem gefur raforkusölum gögn um notkun notenda niður á klukkutíma. Þannig verður loks hægt að bjóða breytilega taxta, en raforka er einmitt seld í klukkutíma tímabilum fram í tímann á heildsölumarkaði, á fljótandi verði. Starfsemi raforkusölufyrirtækja snýst því um að áætla rafmagnsþörfina niður á klukkutíma, mánuði fram í tímann, og jafna út verðsveiflur í heildsölu.

Draga úr álagstoppum fyrir dreifiveitur
Straumlind var stofnuð fyrir ári síðan gagngert með það í huga að bjóða breytileg raforkuverð til heimilanna og gera þar með raforkukerfið snjallara og skilvirkara, og skila afrakstrinum til heimilanna í formi lægra verðs.

„Þetta er bara spurning um að nýta allt betur. Við vildum hjálpa til við að stuðla að orkuskiptunum og sáum að það var mikið sem við gátum fært inn á markaðinn. Hann var búinn að vera svolítið flatur, ef við getum orðað það þannig,“ segir Símon Einarsson, einn stofnenda Straumlindar.

„Þetta er bæði hugsað til að auka framboð fyrir notandann, en ekki síður til að draga úr álagstoppum. Það verður ákveðin áskorun fyrir dreifiveituna ef allir fá sér rafmagnsbíl og koma svo heim til sín á kvöldin og ætla að stinga bílnum í samband og elda á sama tíma,“ segir Símon, en til þess að kerfið réði við slíkt álag gæti þurft að kosta miklu til við að grafa upp götur og leggja öflugri strengi, sem síðan þjónuðu engum tilgangi utan háannatíma.

Nánar var fjallað um málið í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins í fyrra. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .