Ari Edwald, forstjóri 365
Ari Edwald, forstjóri 365
© vb.is (vb.is)
Greint er frá því í Viðskiptablaðinu í dag að 365 miðlar ehf. hafa eignast um þriðjungshlut í Birtíngi, stærsta útgefanda tímarita á Íslandi. Hlutinn á 365 ehf. í gegnum félagið Hjálm, aðaleiganda Birtíngs. Hjálmur heldur um 64% hlut í Birtíngi.

365 miðlar eignuðust 47% hlut í Hjálmi í janúar síðastliðnum þegar kröfu á Hjálm var breytt í hlutafé. Krafan sem 365 miðlar keyptu á Hjálm er vegna láns sem var veitt fyrirtækinu í júlí 2009. 365 fékk síðan kröfuna framselda í ágúst í fyrra.

Ari Edwald, forstjóri 365, vill ekki upplýsa um af hverjum krafan var keypt. „Ég ætla ekki að gefa það upp. Þetta er bara krafa sem við áttum á Hjálm og ég sé ekki ástæðu til að fjalla um það opinberlega. Við töldum verðmæti kröfunnar aukast með því að nýta þennan breytirétt. Þetta er mat á því hvernig við myndum hámarka verðmæti kröfu sem við áttum á þetta félag.“ Hreinn Loftsson vildi heldur ekki upplýsa um við hvern upphaflegi lánssamningurinn var gerður.