„Stefna stjórnvalda er að draga úr ríkisábyrgðum eins og kostur er næstu árin. Ekki er gert ráð fyrir að ríkissjóður gefi út nýjar ríkisábyrgðir á tímabilinu,“ þetta kemur fram í nýbirtri ársskýrslu frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Á árinu 2017 lækkuðu ríkisábyrgðir úr 1.039 milljörðum króna í 970 milljarða króna, þar af eru ábyrgðir vegna Íbúðalánasjóðs 794 milljarðar eða 82% af heildarríkisábyrgðum. Ríkisábyrgðir vegna Landsvirkjunar nema 153 milljörðum eða 16% af veittum ábyrgðum. Í hlutfalli af vergri landsframleiðslu lækkuðu ríkisábyrgðir úr 42% í 38% á milli ára. Helstu markmið málaflokksins eru að lækka stöðu ríkisábyrgða eins hratt og kostur er ásamt því að veita ekki nýjar ríkisábyrgðir.

Vel hefur gengið að lækka útistandandi ríkisábyrgðir á síðustu árum. Skuldbindingar Íbúðalánasjóðs eru með afborgunarfyrirkomulagi og hafa því ábyrgðir vegna sjóðsins lækkað í samræmi við niðurgreiðslu sjóðsins á útistandandi skuldum. Sjóðurinn hefur ekki tekið á sig neinar nýjar skuldbindingar á síðustu árum. Staða ríkisábyrgða gagnvart Íbúðalánasjóði, sem hlutfall af landsframleiðslu, hafa lækkað úr 76% í lok árs 2009 í 29% í lok júnímánaðar 2018.

Landsvirkjun hefur í auknum mæli greitt niður skuldir með ríkisábyrgð á síðustu árum og félagið hefur þar að auki lagt áherslu á fjármögnun án ríkisábyrgðar síðustu ár.

Raunstaða ríkisábyrgða var 56 milljörðum betri en gert var ráð fyrir og sem hlutfall af VLF voru þær 38% í stað 41% eins og áætlað hafði verið.