Ithaca Petroleum ehf., Kolvetni ehf. og Petoro Iceland ehf. hafa gefið frá sér sérleyfi til olíuleitar á Drekasvæðinu svokallaða. Orkustofnun hefur staðfest ósk aðilanna. Frá þessu er greint á vef Orkustofnunar .

„Leyfihafarnir söfnuðu 1.000 km af endurkastsgögnum á leyfissvæðinu sl. sumar í samræmi við ákvæði leyfisins. Túlkun gagnanna leiddi til þeirrar ályktunar rekstraraðilans að ekki væri ástæða til að halda áfram rannsóknum og skuldbinda sig til að takast á við rannsóknaráætlun samkvæmt öðrum áfanga leyfisins,“ kemur meðal annars fram í fréttinni.

Orkustofnun fundaði með leyfishöfum seint á síðasta ári og á þeim fundi fóru þeir yfir niðurstöður jarðfræðirannsókna og leituðu formlega eftir Orkustofnunar til að gefa sérleyfið eftir.

„Jarðfræðirannsóknir byggðar á nýju endurkastsgögnunum benda til þess að líkur á að finna olíu og/eða gas á afmörkuðu svæði sérleyfissvæðis sem rannsakað var, gefi ekki tilefni til að takast á við næsta áfanga rannsóknaráætlunar sérleyfisins. Niðurstöður túlkunar Ithaca Petroleum á gögnunum leiðir líkur að því að á svæði sem leyfishafarnir töldu fýsilegt, væri móðurberg kolvetna á dýpri jarðlögum en fyrstu vísbendingar gáfu til kynna,“ er jafnframt tekið fram í fréttinni.