Wu-Tang Clan hafa lýst því yfir að þeir hyggist gefa hluta þeirra 257 milljóna króna sem Martin Shkreli keypti Once Upon a Time in Shaolin af þeim fyrir.

Sveitin tók þessa ákvörðun eftir að hafa uppgötvað hver það var sem keypti plötuna. Þegar viðræður um kaupin fóru fyrst fram var Martin hulinn nafnleynd. Eftir að meðlimir sveitarinnar uppgötvuðu hver væri að kaupa af þeim plötuna sáu þeir að einhverju leyti eftir sölunni.

Meðlimur rapphópsins, RZA, segir nú í tölvupósti sem hann skrifar til Bloomberg, að gengið hafi verið frá sölu plötunnar í maí, löngu áður en fréttir af viðskiptasiðferði Shkreli bárust eyrum þeirra.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær var Martin Shkreli, maðurinn sem komst í heimspressuna fyrir að hækka verð á HIV-lyfinu Daraprim um einhver 5000% í september síðastliðinn sá sem keypti ‘Once Upon a Time in Shaolin’, ofursjaldgæfu plötu rappgengisins Wu-Tang Clan.

Platan var aðeins gefin út í einu eintaki , sem útskýrir verðið - heilar 2 milljónir bandaríkjadala. Verðið nemur rúmlega 258 milljónum íslenskra króna.